Stómaferðakort og myndband vegna skoðunar á flugvöllum.
Skömmu eftir að Stómasamtökin voru stofnuð 1980 veittum við því athygli að stómavörufyrirtækið SQUIBB í Bretlandi hafði látið útbúa ferðakort sem hægt var að sýna tollvörðum á flugvöllum þegar þeir vildu skoða hjálpartæki stómaþega, svo sem poka og annað tilheyrandi. Á kortunum voru upplýsingatextar á ensku, þýsku, frönsku og spænsku, og gátum við áritað þá með nafni viðkomandi stómaþega auk staðfestingar frá lækni um þörf okkar fyrir hjálpartækin. Mitt kort var undirritað 1986 og reyndist vel á ferðalögum.
Árin liðu og upp úr aldamótunum gáfu Norrænu stómasamtökin (NOA) út sameiginlegt ferðakort, á stærð við bankakort, sem allir félagar gátu, og geta trúlega enn, fengið endurgjaldslaust. Á því er stuttur og gagnorður texti og hefur norræna ferðakortið reynst mér og örugglega mörgum öðrum vel þegar tollverðir hafa viljað skoða stómavörur í handfarangri eða þukla á manni. Um skeið var einnig hægt að fá stómaferðakort hjá Coloplast í Danmörku.
Sem betur fer verða stómaþegar ekki oft fyrir óþægindum á flugvöllum en þó kemur það fyrir öðru hvoru. Nýlega varð 75 ára bresk gömul kona með stóma að gangast undir all ítarlega líkamsleit á flugvellinum í Bristol í Englandi þótt hún hafi framvísað þarlendu ferðakorti. Í lesendabréfi í riti bresku stómasamtakanna, IA Journal, greindi hún frá því að slíkt hafi ekki komið fyrir áður og væri hún þó vön að fljúga til ýmissa staða. Þarna virtist eitthvað vanta á þekkingu tollvarða. Sennilega hefðu þeir gagn af fræðslumyndbandinu sem Stómasamtökin hafa látið gera og var fyrst kynnt á ársfundi norrænu stómasamtakanna í Reykjavík haustið 2023. Þetta er þarft framtak sem getur a.m.k. komið sér vel í Leifsstöð.
Athyglisverð nýjung – rakanemi fyrir stómaþega
Fyrir kemur að leki meðfram stómapokum, einkum þegar úrgangurinn er mjög þunnur. Enn gerist þetta, þótt framfarir hafi orðið á búnaði, og hafa kannanir sýnt að einkum sé hætta á slíku í svefni.
Coloplast er farið að kynna á Bretlandseyjum rakanema, Heylo, sem varar við leka úr stómapokum. Um er að ræða lítinn plasthlut með sendi, og er hann festur við plötuna sem pokinn er festur á. Hægt er að tengja nemann við síma og kemur þá boð til stómaþegans þannig að hann vaknar áður en raki frá leka kemst út í náttföt og rúmföt. Haft er eftir ungri konu, tveggja barna móður, sem eftir að hafa verið með Crohn´s sjúkdóm í 15 ár og gengist undir stómaaðgerð 2022, að rakaneminn hafi skipt hana miklu máli. Í fyrsta lagi getur hún nú komið í veg fyrir að leki frá poka valdi skaða, og í öðru lagi losnar hún við áhyggjur sem áður héldu vöku fyrir henni og trufluðu nætursvefninn. Neminn kemur sér einnig vel að deginum því að hún er öruggari með sig við öll störf og getur m.a. notið þess að fara í líkamsrækt eða í búðaferð. Vonandi verður þessi nýji rakanemi fánlegur hér á landi áður en langt um líður.
(Samantekt eftir Ólaf R. Dýrmundsson, m.a. með hliðsjón af efni í IA Journal, bæði í hausthefti 2024 og vorhefti 2025).