Spurt og svarað

Er hægt að ganga í öllum gerðum af fötum?

 • Fyrst eftir aðgerð er líkaminn aumur á aðgerðasvæðinu og ekki þægilegt að vera í þröngu eða buxum með miklum streng. En þegar frá líður ganga flestir í sömu fötum og þeir notuðu fyrir aðgerð, t.d. gallabuxur.

Er hægt að eignast börn þótt maður sé með stómíu?

 • Það hafa margar konur eignast börn þótt þær séu með stóma og það hefur ekkert háð þeim að vera með stómapoka. Hins vegar hefur svona stór aðgerð á kviðsvæðinu áhrif á frjósemi jafnt hjá konum.

Er hægt að fara í sund með stómapoka?

 • Það er ekkert mál. Margir stómaþegar fara daglega í sund.

Er hægt að gera allt með stóma sem venjulegt fólk getur gert?

 • Já, nánast allt. Stómaþegar hlaupa, hjóla, synda, klifra fjöll, kafa og margt fleira.

Er stómían ekkert viðkvæm fyrir höggi eða að eitthvað rekist í hana?

 • Stómian sjálf hefur enga taugaenda, ef þú færð högg gætirðu hins vegar fundið til verks í kviðvöðvum í kringum hana. Ekki er vitað um hér á landi að fólk hafi þurft að leita læknis eftir að eitthvað hafi rekist í stómíu.

Get ég átt eðlilegt kynlíf?

 • Bæði kynin ættu að geta lifað eðlilegu kynlífi eftir aðgerð. Andlegir erfiðleikar sem að oft hrjá fólk eftir erfiða reynslu geta þó haft áhrif á kynlífið. Líkamlega er ekkert því til fyrirstöðu að fólk geti lifað eðlilegu kynlífi sem áður.

Þarf ég að taka inn lyf?

 • Ekki endilega. Flestir trappa sig niður af sterunum sem þeir fá við aðgerðina á nokkrum vikum. Ef þú hefur verið mjög lengi á sterum þá gæti það tekið lengri tíma. Sumir taka inn imodium til að hægja á þarmahreyfingum til að minnka tíðni klósettferða, einnig taka sumir inn Husk í sama tilgangi. Aðgerðin er lækning í sjálfum sér!

Eru einhverja aukaverkanir eða óþægindi sem að gott er að vita af?

 • Já það geta komið upp vandræði sem eru í flestum tilfellum smávægileg miðað við það sem sjúklingur með slæma bólgusjúkdóma hefur upplifað. Einstaklingar geta fundið fyrir stíflu, þ.e til dæmis þegar maturinn hefur ekki verið tugginn nægilega vel og festist í görninni, þyrmla (fistula), og sýkingu í pokann (pouchitis). Þetta er allt hægt að meðhöndla. Mjög sjaldgæft vandamál er leki (anastomosis leakage) þá gæti þurft að setja tímabundna stómíu á meðan svæðið þar sem lekinn er fær að gróa. Síðan er görnin saumuð saman aftur (stómían tekin) og pokinn tekur aftur til sinna starfa. Skurðlæknirinn þinn mun gera allar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að þessi vandamál komi upp . Mundu bara að vera í góðu sambandi við lækninn þinn og stómahjúkrunarfræðinginn og spurðu þeirra spurninga sem brenna á þér. Einnig er gott að hafa samband við Stómasamtök Íslands þar sem þar er fólk sem hefur sömu reynslu og þú og getur aðstoðað þig .

Get ég fengið sáraristilsbólgu (Colitis ulcerosa) aftur?

 • Nei, aðgerðin og brottnám ristils og slímhúðarinnar í endaþarmi lokar þeim kafla í lífi þínu. Ef það er enginn ristill þá er engin sáraristilsbólga heldur! Með því að fjarlægja ristilinn er einnig komið í veg fyrir ristilskrabba. Þó er stundum skilin eftir mjög lítil hluti af slímhúð sem skurðlæknirinn þarf þá að fylgjast með reglulega.

Er J-poka aðgerð mjög sársaukafull?

 • Þú getur fengið verk á skurðsvæðið eftir aðgerð. Það eru til góð verkjastillandi lyf sem eru gefin á spítalanum. Flestir taka svo hefðbundin verkjalyf þegar heim er komið við góðan árangur. Fljótlega eftir heimkomu er svo ekki þörf fyrir þau lengur.

Hafa einhverjir eftirsjá eftir að hafa farið í j-poka aðgerð?

 • Flestir einstaklingar sem að farið hafa í aðgerðina eru mjög ánægðir með ákvörðun sína. Töflur, verkir, blóðugar hægðir heyra sögunni til. Margir þora ekki annað en að standa vörð og bíða eftir næsta kasti, þar sem þeir eru orðnir svo vanir að búa við óttann af krónískum sjúkdómi. En þér er óhætt að sleppa takinu því að sjúkdómurinn er farinn og núna byrjar líf þitt að nýju. Margir segja að eftir að ristillinn var tekin þá fyrst hófst lífið fyrir alvöru.

Hvað má ég borða eftir að ég hef fengið J-poka

 • Næstum því allan mat. Þú verður bara að prófa þig áfram í smáum skömmtum í einu og athugaðu hvernig þér líður. Ef þú áttir í erfiðleikum með að melta mjólkurvörur eða með laktósaóþol gæti það enn verið til staðar. Nánar um mataræði frá Svövu