Svava Engilbertsdóttir næringarráðgjafi á Landspítalanum hélt fróðlegt erindi á fræðslufundi Stómasamtakanna 1. nóvember 2007 sem hún nefndi Mataræði, næring og melting – eftir aðgerð á meltingarvegi. Hér verður drepið á það helsta sem fram kom í erindi hennar.
Ráðleggingar um mataræði
Hlutverk fæðunnar er að veita líkamanum orku og nauðsynleg næringarefni. Hjá fullorðnum og börnum frá tveggja ára aldri skiptir máli að fjölbreytni í fæðuvali sé í fyrirrúmi. Í því sambandi er rétt að hafa eftirfarandi fæðusamsetningu í huga: Grænmeti og ávextir daglega. Fiskur – helst tvisvar í viku eða oftar. Gróft brauð og annar kornmatur. Fituminni mjólkurvörur. Salt í hófi. Lýsi eða annar D-vítamíngjafi. Trefjar a.m.k. 25 grömm á dag. Vatn er besti svaladrykkurinn. Hér mætti hafa í huga fæðuhringinn sem flestir ættu að kannast við. Honum má skipta í sex jafn þríhyrninga: 1) Fiskur / kjöt / egg / baunir. 2) Feitmeti. 3) Kornvörur. 4) Grænmeti. 5) Ávextir / ber. 6) Mjólk / mjólkurvörur.
Líðan og næring fyrir aðgerð
Líðan fólks og næring fyrir aðgerð er einstaklingsbundin en vissulega skiptir máli hvaða hluti meltingarvegarins er sjúkur. Fólk með meltingarfærasjúkdóma borðar oft ekki vegna vanlíðunar og/eða hræðslu við verki. Því líður jafnvel best að borða alls ekki. Slíkt eykur hættu á einhæfu fæði og vannæringu. Það hefur aftur í för með sér einhæft fæðuval og þyngdartap sem getur numið 10-15 kg.
Fæðuval eftir stómaaðgerð
Markmiði með ráðgjöf um fæðuval eftir stómaaðgerð er ferns konar: Koma í veg fyrir vökva- og steinefnatap. Mæta orku- og næringarþörf. Koma í veg fyrir stíflu. Hafa áhrif á það sem í pokann kemur. Skipta má fæðu eftir stómaaðgerð í tvö tímabil. Hið fyrra er fyrstu 6-8 vikur eftir aðgerð. Á spítalanum er byrjað með fljótandi fæðu sem smám saman breytist í fasta fæðu. Seinna tímabilið er þegar einstaklingur er búinn að ná bata eftir aðgerð og getur farið að borða flest alla fæðu. Nauðsynlegt er þá að prófa sig áfram með einstakar fæðutegundir, taka fyrir eina í einu, sleppa hlaðborðum. Það tekur alltaf einhvern tíma að venja sig á þá fæðu sem maður var vanur að neyta. Fyrstu máltíðirnar skipta miklu máli og því þarf að fara rólega af stað. Nauðsynlegt er að tyggja matinn vel og taka góðan tíma í að matast. Nokkrar smærri máltíðir á dag eru heppilegri og nauðsynlegt er að drekka vel, ekki síst á milli mála. Garnastómaþegar þurfa aukið salt.
Fæða sem getur stíflað: Ávaxtahýði og þurrkaðir ávextir, svo sem gráfíkjur, döðlur og rúsínur. Hnetur, fræ, möndlur og kókosmjöl. Maískorn, hvítkál og popkorn. Hýði og tægjur, svo sem spergill (aspargus), sellerí, tómatar og ananas.
Fæða sem þykkir: Hafrar, vel þroskaðir bananar, eplamauk, soðin grjón og pasta, soðin mjólk, jógúrt, hnetusmjör, sagógrjón, bygg.
Fæða sem þynnir: Appelsínu- og sveskjusafi, mikil sætindi, lakkrís, þurrkaðir ávextir, bjór og áfengi, sterkt kryddaður matur, kaffi.
Fæða sem getur haft áhrif á loft og/eða lykt: Baunir ýmiss konar, hvítkál, laukur, hvítlaukur, gosdrykkir og bjór, melónur, gulrófur, djúpsteiktur matur, sterkir ostar, krydd, rúgbrauð, fiskur og egg.
Annað sem getur haft áhrif á loftmyndun: Óregla á máltíðum, illa tuggið og borðað hratt, tyggjónotkun, drukkið með röri, tuggið með opinn munn, sætuefni ýmiss konar.
Járnrík og kalkrík fæða er nauðsynleg. Dæmi um járnríka fæðu eru Cheerios, blóðmör, lifur, lifrarpylsa, lifrarkæfa, nautakjöt, lambakjöt, gróf brauð og kornvörur og dökkgrænt grænmeti. Dæmi um kalkríka fæðu eru ostur, sardínur, jógúrt, mjólk, skyr og kotasæla.
Hætta er á beinþynningu ef kalk og D-vítamín vantar. D-vítamín er í lýsi, feitum fiski og sardínum.
Að lokum skal hér bent á nokkrar gagnlega íslenskar vefsíður um mataræði og innihald matvæla:
- www.matis.is/ISGEM/is/leit
- www.matarvefurinn.is/
- www.lydheilsustod.is/
- www.ust.is/
—-
Þú átt að geta borðað svo til sama mat og þú hefur gert hingað til. Hafi þér orðið ómótt eða liðið illa af einhverri fæðu fyrir aðgerð er þér ráðlagt að halda áfram að forðast hana. Þú ættir að gæta varúðar í matarvali í fyrstu eða þangað til þú hefur komist að því hvað þú þolir. Sumir geta borðað og drukkið allt en aðrir þurfa að forðast t.d. mikið steiktan, feitan eða mjög kryddaðan mat (karrý, feiti, flesk, sinnep o.fl.) og ýmsa drykki, s.s. brennd vín, rauðvín og sæta líkjöra. Þar sem meltingarvefurinn hefur styst er rétt að forðast mat sem meltist illa og má í því sambandi nefna poppkorn, hnetur, karrý o.þ.h. Meginatriðið er þó þetta: að tyggja matinn vel og drekka sem mest með honum. Við ráðleggjum þér að drekka sem mest af vatni eða öðrum vökva og garnastómaþegum er ráðlagt að fá sér meira salt en venjulega, t.d. með því að salta matinn vel.
Það sem máli skiptir er þó að það er ekki til ein regla í þessum efnum fremur en öðrum sem gildir fyrir alla. Þú verður sjálf(ur) að prófa þig áfram í þessu tilliti.